Skrifblinda

Þegar lesblindur einstaklingur á í erfiðleikum með að skrifa er það kallað rithömlun eða skrifblinda. Hún tengist skynvillu. Nokkrar ástæður eru fyrir skriftarörðugleikum. Í sumum tilfellum er léleg skrift notuð til að leyna stafsetningarvanda eða öðrum göllum. Í öðrum tilvikum er hún komin fram vegna þess einfaldlega að hinn lesblindi var skynvilltur þegar leiðbeiningar vour gefnar.

Margar huglægar myndir

Algengasta tegund skriftarvanda kemur fram þegar lesblindir nemendur hafa fengið svo mikla kennslu um hvernig skrift eigi að líta út að þeir hafa margfaldar huglægar myndir af orðum og stöfum, hverja ofan í annarri. Með skriffæri geta þeir aðeins dregið upp eina línu í einu og bregðast við með því að teikna blöndur af öllum myndunum, oftast með því að skipta úr einni yfir í aðra. Útkoman verður hrærigrautur af línum sem iða og hoppa um alla síðuna.

Lausnin er fólgin í að losa sig við allar gamlar, huglægar myndir. Þegar nemandi hefur losnað við allar myndirnar getur hann séð eina skýra huglæga mynd af hvernig skrift eigi að líta út. Í slíkum tilvikum er heppilegt að lesblindir skuli hafa jafnskýrar huglægar ímyndir og raun ber vitni. Með því að fá nemandann til að kalla myndirnar fram, eina í einu, og storka þær út er einfalt mál að eyða þeim.

Taugabrautir í dvala

Verstu tegundina af skriftarvanda er erfiðast að útskýra vegna lífeðlisfræðinnar að baki þess hvernig heilinn starfar og vinnur úr áreiti.

Ímyndaðu þér heilann sem stórt fiskinet. Í netinu eru bæði lóðréttir og láréttir strengir og hvar sem tveir strengir mætast er hnútur. Í þessu líkani tákna strengirnir taugunga og hnútarnir taugamót. með því að rekja sig eftir strengjunum færist maður frá einum hnút til annars í netinu. Fræðilega eru því hver taugamót í heilanum tengd öllum hinum.

Bættu því nú við myndina að netið skiptist niður í nokkur hundruð mismunandi svæði og veitir hvert svæði tiltekna þjónustu fyrir heildina. Þannig eru sérstök svæði fyrir sjón, heyrn, fingurhreyfingar og allt annað sem einstaklingur skynjar og gerir.

Þegar áreiti berst í netið örvast fyrsti hnúturinn. Þar er unnið úr áreitinu með því að senda önnur áreiti áfram eftir strengjunum til annarra hnúta og þannig koll af kolli þar til upphaflega áreitið hefur borist til allra hnúta sem nauðsynlegir eru. Þetta tiltekna áreiti gæti farið fjöldann allan af leiðum en þegar ein leið hefur verið notuð verður hún sterkari. Því sterkari, því meira notuð. Sumar leiðir eru aldrei örvaðar og verða með tímanum veiklulegar og ónotaðar.

Ímyndaðu þér að leiðirnar séu taugabrautir og að sem heild myndi þær tauganet. Hafðu einnig í huga að vegna bjagaðra skynjana lesblindra (skynvillunnar) hefur taugabrautin, sem er nauðsynleg til að sjá beinar skálínur, aldrei verið örvuð. Þessi einstaklingur gæti einfaldlega ekki séð beinar skálínur.

Augu viðkomandi senda réttar upplýsingar en heilinn vinnur ekki úr ímyndum af skálínum. Taugabrautin fyrir slíkt hefur aldrei verið notuð. Þar sem heilinn hefur aldrei verið fær um að sjá beina skálínu getur hann ekki skipað hönd að draga slíka línu vegna þess að taugabrautin fyrir þá aðgerð hefur aldrei verið notuð.

Til að geta skrifað þarf meðal annars að kunna að teikna beinar skálínur. Ef skrifblint barn hefur aldrei séð þær þá teiknar barnið það sem það hefur séð. Bjagaða myndin, sem heilinn meðtók þegar barnið horfði á skálínurnar, verður fyrirmyndin af því sem teiknitaugabrautin lætur höndina gera.

Þetta er ofureinfaldað líkan en rétt í grundvallaratriðum. Ég hef unnið með mörgum lesblindum sem gátu ekki séð skálínur. Þeir gátu ekki notað leir til að búa til stafi með skálínur, eins og A, M, N, W, V og X. Oftast gengur verst með W. Þessir einstaklingar skilja ekki hvernig hægt er að festa saman fjórar leirlengjur til að þær líti eins og W.

Stundum þegar mæður og kennarar fylgjast með mér vinna með slíkum nemendum verða þau óþreyjufull þegar nemandanum tekst ekki að gera það sem lagt er fyrir hann. Ég held hins vegar ró minni því að ég geri mér grein fyrir hvað er á seyði.

Ég veit að þegar nemandi er skynstilltur má örva taugabrautirnar til að sjá beinar skálínur. Þær eru ekki lengur hindraðar af skynbjögunum.

Ég veit líka að í hvert skipti sem hann reynir að setja leirbútana saman á réttan hátt er hann að opna áður ónotaðar taugabrautir. Ekki líður langur tími, oftast innan við klukkutími, þar til nemandanum tekst að opna taugabrautina og búa til skálínu. Þegar búið er að opna taugabrautina einu sinni styrkist hún æ meir. Innan eins eða tveggja daga getur nemandinn séð allar beinar skálínur í umhverfinu sem hafa verið honum ósýnilegar fram til þessa.

Í dæminu, sem lýst var hér að framan, voru beinar skálínur vandinn. Í reynd takmarkast hann ekki við þær. Mörg önnur sjónáreiti geta valdið sams konar erfiðleikum. Stand sem þetta má leiðrétta ef einstaklingur í skynstilltu ástandi er látinn horfa á það sem hann átti í vandræðum með og móta síðan eftirmynd af því í leir.

 

Aðalsíða